You are here

Svona var árið 2018!

Eins og á undanförnum árum var nóg um að vera í starfsemi Víkings Ó. og UMF Víkings/Reynis árið 2018. Hér að neðan ætlum við að fara yfir allt það helsta sem var í gangi á árinu.

Knattspyrna:
Eins og alltaf var árið viðburðarríkt á knattspyrnuvellinum hjá Víkingi Ó. Yngstu flokkar félagsins tóku þátt í fjölmörgum mótum á árinu og gáfu stærri liðum frá Reykjavíkursvæðinu ekkert eftir. Fimmti flokkur karla stóð sig frábærlega í sumar og gerði sér lítið fyrir og komst alla leið í úrslitakeppni Íslandsmótsins og vann marga frækna sigra í leiðinni.

5 fl kk í baráttunni í sumar

 

  1. flokkur kvenna tók einnig þátt í Íslandsmótinu sem og 3. flokkur kvenna og 4. flokkur karla. Í öðrum flokki karla og kvenna voru liðin í samstarfi við önnur félög. 2. flokkur kvenna tefldi fram sameiginlegu liði með Aftureldingu og Fram en 2. flokkur karla spilaði með Aftureldingu. Eins og áður voru það Ejub Purisevic og Suad Begic sem sáu um þjálfun drengjaliða en hjá stelpunum voru það Tomasz Luba og Selma Pétursdóttir sem sáu um þjálfunina.
5. flokkur kvenna

 

Sökum mikilla breytinga á milli ára tefldi Víkingur Ó. ekki fram liði í meistaraflokki kvenna árið 2018 þar en liðið hafði tekið þátt í Íslandsmótinu frá árinu 2013. Þrátt fyrir það sendum við ungt lið til keppni í Lengjubikar meistaraflokka þar sem stelpurnar stóðu sig með stakri prýði. Er það einlægur vilji félagsins að koma meistaraflokki kvenna aftur á laggirnar og er stefnt að því að ná því markmiði í náinni framtíð enda mikill efniviður til staðar hjá kvennaliðum yngri flokka.

Á heildina litið var árið gott hjá meistaraflokki karla í knattspyrnu. Eftir fall úr deild þeirra bestu, Pepsídeildinni, haustið 2017 var það hlutskipti okkar að spila í Inkassodeildinni sumarið 2018. Eins og áður voru töluverðar mannabreytingar hjá liðinu á milli ára. Fjórir leikmenn sem léku með Víkingi árið 2017 sömdu við önnur lið í Pepsídeildinni og fjölmargir erlendir leikmenn snéru aftur til síns heima. Í staðinn komu þó öflugir menn sem stóðu vaktina með prýði Liðið var í toppbaráttu í deildinni meira og minna allt mótið og fór til að mynda í gegnum tímabil þar sem liðið lék 11 leiki án þess að tapa. Að lokum var það hlutskipti liðsins að enda í 4. sæti deildarinnar og teljum við að allir sem að liðinu koma geti vel við unað.

Stuðningsmenn Víkings Ó. í undanúrslitum bikarsins.

Meistaraflokkur karla áti góðu gengi að fagna í bikarkeppni KSÍ og má með sanni segja að um sannkallað bikarævintýri hafi verið að ræða. Eftir nokkuð þægilega sigra gegn Hamar og KFG mættum við Inkasso liði Fram í 16-liða úrslitunum og eftir æsispennandi leik vann Víkingur Ó. nauman 1-0 sigur og liðið komið í 8-liða úrslit. Mótherjinn í 8-liða úrslitunum voru nafnar okkar úr Víkingi Reykjavík sem spila í Pepsídeildinni. Fyrirfram var búist við sigri Reykjavíkurliðsins en ÓlafsvíkurVíkingar gáfu ekkert eftir í leiknum og með skipulögðum varnarleik og einni skarpri skyndisókn tókst liðinu að vinna 1-0 og tryggja sér í leiðinni sæti í undanúrslitum. Var það aðeins í annað sinn í sögu félagsins sem sá árangur náðist.

Ævintýrið var hvergi nærri búið því undanúrslitaleikurinn gegn Breiðablik, sem þá var efst í Pepsídeildinni, var sannkallaður spennutryllir. Eftir þunga atlögu Blika að marki Víkings tókst Ólsurum að skora eftir hornspyrnu og komast yfir, þvert gegn gangi leiksins. Blikar náðu að jafna áður en venjulegur leiktími var liðinn og því þurfti að grípa til framlengingar. Aftur komst Víkingur Ó. yfir í framlengingunni en á lokaandartökum leiksins tókst Blikum að jafna á ný og ljóst að úrslitin myndu ráðast í vítaspyrnukeppni. Þar reyndust Blikar sterkari og Ólsarar sátu eftir með sárt ennið. Þrátt fyrir tapið gátu Snæfellingar verið afar stoltir af framgöngu sinna manna.

Gervigras:
Einn merkilegasti dagur ársins fyrir Víking Ó. og í raun allan Snæfellsbæ var 13. júní 2018 þegar nýr og glæsilegur gervigrasvöllur var formlega tekinn í notkun.  Völlurinn kemur til með að vera bylting í iðkun knattspyrnu á svæðinu. Áður fyrr gátu iðkendur félagsins einugis æft innanhús á dúk yfir vetrartímann en gervigrasvellinum er ætlað að breyta því.

Útileikur á gervigrasinu í desember.
Völlurinn vígður

Þá erum við strax farin að sjá hversu vel völlurinn getur nýst okkur en leikið var í yngri flokkum á Faxaflóamótinu hér í Ólafsvík í desember. Það hefur ekki verið hægt áður.

Gervigrasið séð frá lofti.

Völlurinn er einnig útbúinn glæsilegum flóðljósum svo einnig er hægt að æfa og spila á kvöldin.

Frjálsar:
Frjálsar íþróttir eru oðrnar fastur liður af íþróttastarfinu í Ólafsvík og eru æfingarnar alla jafna vel sóttar.  Eva Kristín Kristjánsdóttir hefur undanfarin ár séð um æfingarnar en hún tók sér veikindaleyfi seinni hluta árs 2018 og Margrét Sif Sævarsdóttir stóð vaktina í fjarveru hennar. Eva Kristín er nú mætt tvíefld til leiks á ný og þjálfar börnin í frjálsum íþróttum.

Krakkarnir í frjálsum hafa jafnan keppt á jólamóti HSH og farið einu sinni á ári í æfingabúðir.

Kátir krakkar úr frjálsum íþróttum fengu heimsókn frá jólasveini í desember.

 

Sund:
Sökum þess að ekki fannst sundþjálfari var ekki boðið upp á sundæfingar á fyrri hluta ársins 2018.Á haustdögum varð breyting á þegar Bryndís Guðrún Kristjánsdóttir var ráðin sundþjálfari. Undir hennar handleiðslu hafa sundæfingar gengið vel og börnin hafa tekið umtalsverðum framförum. Stefna félagsins er að styrkja enn frekar sundstarfið á næstu misserum og taka þátt í mótum.

Stund milli stríða í sundinu.

 

Viðburðir:

Árið 2018 var nokkuð viðburðarríkt hjá félaginu og eru helst tveir viðburðir sem stóðu upp úr. Á vordögum ársins stóðum við fyrir stórum íþróttadegi þar sem við buðum öllum börnum á svæðinu að koma og kynnast starfi okkar betur. Mikið var lagt í daginn og leigðum við til að mynda 50 metra loftþrautabraut sem sló í gegn hjá börnunum. Þá komum við einnig upp nokkrum litlum fótboltavöllum í íþróttasal íþróttahússins þar sem krakkarnir léku sér í knattspyrnu.

Frá íþróttadeginum.

Þann 7. október var síðan haldið upp á 90 ára afmæli félagsins með afmælisveislu í íþróttahúsinu. Aðaláherslan var lögð á yngstu kynslóðina og var boðið upp á hoppukastala fyrir börnin. Síðan var boðið upp á afmælisköku og kaffi. Afmælið var nokkuð vel sótt og var gaman að sjá hversu margir sáu sér fært að mæta.

Top