15 ára drengur kom í fyrsta sinn við sögu á Íslandsmóti

Það var áhugaverð stund Á Ólafsvíkurvelli í gærkvöldi þegar Bjartur Bjarmi Barkarson kom inn á sem varamaður undir lok leiks Víkings Ó. OG víkings R. Bjartur var þá að koma inn á í sínum fyrsta Íslandsmótsleik í Meistaraflokki.

Bjartur er fæddur í apríl árið 2002 sem gerir hann einungis rúmlega 15 ára gamlan. Áður hafði hann leikið fyrir meistaraflokk á innanhúsmóti í vetur auk þess sem hann kom við sögu í leik gegn Stjörnunni á undirbúningstímabilinu.

Í sumar hefur þessi efnilegi ungi leikmaður spilað með 2. og 3. flokki Snæfellsnes og ljóst að framtíðin er björt hjá ungum leikmönnum félagsins.

Bjartur þegar hann kom inn á í gær.

 

Fótboltasumarið 2017!

Fótboltasumarið 2017

Sumarið í fótboltanum er að klárast en keppni er lokið hjá yngri flokkum hér í Snæfellsbæ. Í þessum pistli ætlum við að fara yfir gengi liðanna í sumar.

2. flokkur:

Annar flokkur karla gekk í gegnum lærdómsríkt sumar og er reynslunni ríkari í kjölfarið. Þrátt fyrir erfiðleika í byrjun var stígandi í liðinu þegar leið á sumarið og strákarnir kláruðu tímabilið með 2-1 útisigri gegn Njarðvík.

2. flokkur fagnar marki í sumar

3. flokkur:

Þriðji flokkur kvenna lauk keppni þetta sumarið með góðum 3-1 sigri gegn Tindastól í vikunni. Þrátt fyrir frekar lítinn hóp og töluvert leikjaálag, þar sem margar stelpur spiluðu með fleiri en einum flokki, stóð liðið sig vel og tók góðum framförum. Að lokum höfnuðu stelpurnar í 5. sæti í sínum riðli á Íslandsmótinu.

Þriðji flokkur á góðri stundu

 

Snæfellsnes sendi lið til keppni í 7 manna bolta í 3. flokki karla. Upphaflega stóð til að liðið yrði í liði með Víði/Reyni og KF/Dalvík en fyrr nefnda liðið dró sig úr keppni skömmu fyrir mót. Strákarnir okkar léku því tvo leiki gegn Dalvíkingum og unnu þá sannfærandi, 11-1 og 11-2.

 4. flokkur:

Snæfellsnes er með nokkuð stóran hóp í fjórða flokki karla og var því ákveðið að senda tvö lið til leiks á Íslandsmótið í sumar. Bæði lið þóttu standa sig vel og voru félaginu til sóma. A-liðið endaði í þriðja sætinu í sínum riðli eftir spennandi toppbaráttu og B-liðið endaði í fjórða sæti.

Allir kátir

Fjórði flokkur kvenna tefldi fram efnilegu liði á Íslandsmótinu í sumar þar sem stelpurnar okkar tóku þátt í keppni B-liða. Þar unnust nokkrir fræknir sigrar og stelpurnar enduðu gott sumar í fimmta sæti riðilsins, reynslunni ríkari.

 5. flokkur:

Sumarið var vægast sagt viðburðarríkt hjá stelpum og strákum í 5. flokki í sumar. Hápunkturinn hjá strákunum var líklega N1 mótið á Akureyri þar sem Snæfellsnes mætti með tvö lið til keppni. Bæði lið stóðu sig vel og enduðu í 5. sæti sinnar deildar eftir æsispennandi umspilsleiki um sæti.

Strákarnir tóku þátt í Íslandsmótinu og eins og á Akureyri voru tvö lið frá okkur skráð til leiks. Óhætt er að segja að bæði liðin hafi staðið sig með eindæmum vel því A-liðið krækti í 2. sæti mótsins á meðan B-liðið endaði í 3. sætinu.

Góð tilsögn frá Ejub

Stelpurnar í 5. flokki gáfu strákunum ekkert eftir í velgengni í sumar. Liðið lék í sterkum riðli á Íslandsmótinu og endaði að lokum í 10. sæti. Þá fóru stelpurnar bæði á Símamótið og til Vestmannaeyja og snéru til baka frá báðum mótum með bikara í farteskinu.

Meistarar

6. flokkur:

Hápunkturinn hjá sjötta flokki karla er án nokkurs vafa ferð á Orkumótið í Vestmannaeyjum , sem þykir mest spennandi mót sumarsins. Eins og við var að búast voru drengirnir félaginu til sóma og sýndu að framtíðin í fótboltanum er björt á Snæfellsnesi. Þá fóru þeir heim með Helgafellsbikarinn.

Í sjötta flokki kvenna var meðal annars farið á símamótið þar sem stelpurnar skemmtu sér konunglega, sýndu lipra takta með boltann og komu heim með bikar. Þá tóku stelpurnar einnig þátt í Hnátumóti KSÍ í júlí.

Bikargleði

7. flokkur:

Það er staðreynd að á sumrin er hvergi meira stuð en á knattspyrnumótum yngstu leikmanna framtíðarinnar. Gleðin skein úr andlitum allra drengja á Norðurálsmótinu á Skaganum og á Weetos mótinu í Mosfellsbæ. Gleðin var ekki minni hjá stelpunum sem tóku meðal annars þátt í Símamótinu og Weetos mótinu.

post

Viðtal við Cristian Martinez | ,,Mér finnst ég vera heima hjá mér”

Cristian Martinez Liberato

Spánverjinn Cristian Martinez Liberato er fyrir löngu orðinn þekktur á Snæfellsnesi en hann hefur undanfarin þrjú tímabil staðið í marki Víkings Ó. í fótboltanum þar sem hann hefur leikið 62 leiki fyrir Víking Ó. í deild og bikar. Cristian kann vel við sig á Íslandi og til marks um það má nefna að hann er farinn að búa hérna á veturna.

Síðasta vetur kenndi hann í skólanum og samhliða því að kenna í vetur mun hann einnig sinna þjálfun barna í sundi og fótbolta. Aðspurður segist Cristian spenntur fyrir vetrinum.

,,Ég er mjög spenntur fyrir því að fá að þjálfa fótbolta og sund í vetur. Mér finnst báðar íþróttagreinar skemmtilegar auk þess sem ég hef mjög gaman af því að vinna með börnum. Vonandi munu börnin skemmta sér líka.”

Við vitum öll að Cristian er mjög fær í fótboltanum, en hvernig sundmaður er hann? ,,Alltaf þegar ég fer í sund þá reyni ég að gera meira en ég get,” segir Cristian hlæjandi og bætir við. ,,Annars hef ég því miður ekki haft mikinn tíma fyrir sund í sumar. Ég bæti úr því þegar keppnistímabilinu í fótboltanum er lokið.”

Hvaða áherslur hefur Cristian í þjálfun? ,,Það er mikilvægt að reyna að kenna krökkunum sem mest í þeirri íþróttagrein sem þau stunda en first þarf að tryggja að þau hafi gaman af því sem þau eru að gera.”

Cristian þegar hann kom fyrst til Víkings.

Að vera knattspyrnumaður, kennari, fótboltaþjálfari og sundþjálfari tekur skiljanlega mikinn tíma. En hvað gerir Cristian þegar hann er ekki í vinnunni?

,,Ég er eiginlega alltaf í vinnunni en þegar ég fæ frítíma finnst mér best að vera heima að horfa á bíómyndir eða sjónvarpsþætti. Ég reyni líka að lesa bækur þegar tími gefst til.”

Eins og áður segir kom Cristian til Íslands frá Spáni árið 2015. Hann viðurkennir fúslega að hann hafi ekki átt von á því að hingað myndi hann flytja og festa rætur.

,,Nei ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég yrði svona lengi á Íslandi og farinn að vinna í skólanum hérna. En ég er mjög ánægður með þetta og vil nýta tækifærið til að þakka öllum sem hafa hjálpað mér að koma mér fyrir á Íslandi. Mér finnst ég vera heima hjá mér.”

Að lokum segist hann kunna ákaflega vel við bæjarandann. “Ég kann vel við Snæfellsbæ því þetta er mjög rólegt og friðsælt bæjarfélag. Fólkið hérna er líka ótrúlega almennilegt og alltaf tilbúið til að rétta fram hjálparhönd ef maður þarf á því að halda.”

Öruggur í markinu.

Íþróttaveturinn 2017-18

Sumarið er senn á enda og nýtt tímabal hefst í vetrarstarfi Víkings/Reynis. Í vetur verður boðið upp á æfingar í frjálsum íþróttum, knattspyrnu og sundi.

Hér munum við fara nánar yfir vetrarstarfið og tímatöfluna. Hægt er að skrá sig í íþróttir hjá Víkingi/Reyni hér.

Frjálsar íþróttir:


Undanfarið höfum við boðið upp á frjálsar íþróttir með góðum árangri. Æft er í íþróttahúsinu og er iðkendum skipt í tvo aldurshópa. Krakkar í 1.-4. bekk grunnskóla æfa saman í yngri hóp og eldri hópurinn samanstendur af nemendum í 5.-10. bekk. Hvor hópur um sig æfir tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum.

Í frjálsum íþróttum verður farið yfir það helsta í hinum ýmsu íþróttagreinum og börnin fá góða og mikilvæga hreyfingu.

Líkt og áður mun Eva Kristín Kristjánsdóttir sjá um þjálfun frjálsra íþrótta í vetur.

Knattspyrna:


Fótboltinn hefur í áraraðir verið vinsælasta afþreying barna í Snæfellsbæ og munum við halda áfram okkar öfluga fótboltastarfi í vetur.

Boðið er upp á æfingar fyrir alla aldurshópa í karla og kvennaflokki og er óhætt að segja að þjálfarateymið sé ekki af verri endanum. Snillingarnir Suad Begic og Ejub Purisevic halda áfram að þjálfa drengina eins og þeir hafa gert með góðum árangri.

Þjálfarabreytingar hafa orðið í kvennaboltanum en það verða leikmenn meistaraflokks Víkings Ó. sem þjálfa stelpurnar í vetur. Markvörðurinn öflugi, Cristian Martinez Liberato, mun þjálfa 7., 6., og 5. flokk kvenna. Varnarmaðurinn sterki, Tomasz Luba, mun síðan þjálfa 4., 3., og 2., flokk kvenna.

Þá verður Selma Pétursdóttir áfram með byrjendaboltann en tímasetningar á æfingum má sjá betur í tímatöflu að neðan. 

Sund:

Það er uppgangur í sundinu í Snæfellsbæ og ljóst að áhuginn fyrir greininni er að aukast. Aldursflokkaskiptingin í sundinu er sambærileg við frjálsar íþróttir og þar verður æft tvisvar í viku.

Yngri hópurinn æfir á þriðjudögum og miðvikudögum en eldri hópurinn mun æfa á miðvikudögum og föstudögum.

Cristian Martinez Liberato sér um sundþjálfunina í vetur en auk þess að spila fótbolta með Víkingi Ó. og þjálfa yngri flokka þar starfar hann einnig sem íþrótta og spænskukennari í skólanum.

Tímatafla:

Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu Víkings/Reynis eða hjá framkvæmdastjóra félagsins (vikingurol@gmail.com 6968245)