You are here

Íþróttafélagið UMF Víkingur/Reynir lýsir því opinberlega yfir að einelti, ofbeldi, kynþáttafordómar eða mismunun af nokkru tagi mun aldrei líðast innan félagsins. Ef upp koma mál af slíku tagi innan félagsins munu stjórnendur leita allra leiða til að uppræta vandann og leysa málin á fljótlegan og farsælan máta.

Það eru alveg skýrt að engum á að líða illa á æfingum hjá félaginu og þurfa allir (stjórnendur, þjálfarar, foreldrar og iðkendur) að vera samstíga í þeirri stefnu.

Hvernig tekið er á einelti
Eineltismál eru mjög ólík innbyrðis og það sama má segja um ofbeldi sem upp getur komið hjá íþróttafélaginu. Þess vegna er ekki hægt að setja fram reglur um eitt ákveðið vinnuferli sem alltaf eigi að fara eftir. Þeir sem taka á málum (oftast þjálfarar og framkvæmdastjóri) verða að vega og meta hverju sinni hvaða leið sé líklegust til árangurs.
Nokkrar meginreglur eiga þó alltaf við:

*Ef grunur um einelti eða annað ofbeldi kemur upp á að láta þjálfara iðkenda vita, þeir eiga að kanna málið og hafa samráð við framkvæmdastjóra félagsins.
*Tryggja þarf öryggi þolanda og afla góðra upplýsinga um málið eins fljótt og hægt er. Ekki á að spyrja þolanda í viðurvist annarra barna og varast skal að gefa gerendum kost á að hópa sig saman í varnarstöðu.

*Þolandi og foreldrar hans eiga að fá stuðning. Þolandinn á að fá að vita að eineltið sé ekki honum að kenna.

*Árangursríkast er að tala við gerendur einn og einn í senn.

*Þegar talað er við gerendur á að gera þeim ljóst að þeir verði að hætta eineltinu. Sá sem ræðir við gerendur á að sýna þeim kurteisi, varast skammir en ganga út frá því að þeir bæti ráð sitt.

*Þegar foreldrar gerenda eru kallaðir til á að leggja áherslu á að ná góðu samstarfi við þá. Gera skal ráð fyrir að foreldrarnir vilji ekki að barn þeirra leggi aðra í einelti. Foreldrar eiga oft erfitt með að trúa að barn þeirra hagi sér þannig.

*Þegar iðkandi leitar hjálpar vegna eineltis eða ofbeldis verður að koma í veg fyrir að hann verði fyrir hefndaraðgerðum frá gerendum.

*Tekið verður alvarlega á öllum eineltismálum innan félagsins með útilokun frá íþróttaiðkun í takmarkaðan tíma. Ef um síendurtekin brot getur félagið meinað iðkanda að iðka íþrótt innan UMF Víkings/Reynis.

*Fylgjast þarf með málsaðilum eftir að unnið hefur verið að lausn eineltismála til þess að sama sagan endurtaki sig ekki.

*Ef einelti er illviðráðanlegt getur þurft að láta geranda skipta um umhverfi. Hafi einelti staðið lengi getur verið réttlætanlegt að þolandi skipti um umhverfi til þess að auðvelda honum að skipta um hlutverk. Ef ekkert annað dugar er einelti kært til barnaverndaryfirvalda og lögreglu. Aðalstjórn UMF Víkings/Reynis tekur ákvörðun um slíkt ef eineltið er á alvarlegu stigi.

Hvernig tekið er á ofbeldi

Ofbeldismál þar sem börn verða fyrir líkamlegum áverkum eða öðru ólöglegu athæfi hjá UMF Víkingi/Reyni skulu alltaf tilkynnt viðkomandi foreldrum. Jafnframt áskilur félagið sér allan rétt til að grípa til viðeigandi aðgerða gagnvart gerendum í slíkum málum, oftast með útilokun frá íþróttaiðkun í takmarkaðan tíma. Ef um síendurtekin brot getur félagið meinað iðkanda að iðka íþrótt innan UMF Víkings/Reynis. Brot innan félagsins getur haft áhrif innan skólans og eins ef brot gerist innan skólans, þá getur það haft afleiðingar innan félagsins. Íþróttafélagið mun einnig tilkynna þau mál er geta varðað hegningarlög til viðkomandi yfirvalda lögreglu og barnaverndarmála.

Verði ágreiningur milli framkvæmdastjóra og forráðamanna barna um meðferð mála sem ekki tekst að leysa getur hvor aðili um sig vísað málinu til aðalstjórnar UMF Víkings/Reynis sem tekur málið fyrir.

 

Framangreind stefna og vinnubrögð í aðgerðum gegn einelti og öðru formi ofbeldis í Íþrótta og Ungmennafélaginu Víkingi/Reyni er samþykkt af hálfu starfsfólks félagsins, þjálfurum og aðalstjórn.

Top