You are here

Fótboltasumarið 2017!

Fótboltasumarið 2017

Sumarið í fótboltanum er að klárast en keppni er lokið hjá yngri flokkum hér í Snæfellsbæ. Í þessum pistli ætlum við að fara yfir gengi liðanna í sumar.

2. flokkur:

Annar flokkur karla gekk í gegnum lærdómsríkt sumar og er reynslunni ríkari í kjölfarið. Þrátt fyrir erfiðleika í byrjun var stígandi í liðinu þegar leið á sumarið og strákarnir kláruðu tímabilið með 2-1 útisigri gegn Njarðvík.

2. flokkur fagnar marki í sumar

3. flokkur:

Þriðji flokkur kvenna lauk keppni þetta sumarið með góðum 3-1 sigri gegn Tindastól í vikunni. Þrátt fyrir frekar lítinn hóp og töluvert leikjaálag, þar sem margar stelpur spiluðu með fleiri en einum flokki, stóð liðið sig vel og tók góðum framförum. Að lokum höfnuðu stelpurnar í 5. sæti í sínum riðli á Íslandsmótinu.

Þriðji flokkur á góðri stundu

 

Snæfellsnes sendi lið til keppni í 7 manna bolta í 3. flokki karla. Upphaflega stóð til að liðið yrði í liði með Víði/Reyni og KF/Dalvík en fyrr nefnda liðið dró sig úr keppni skömmu fyrir mót. Strákarnir okkar léku því tvo leiki gegn Dalvíkingum og unnu þá sannfærandi, 11-1 og 11-2.

 4. flokkur:

Snæfellsnes er með nokkuð stóran hóp í fjórða flokki karla og var því ákveðið að senda tvö lið til leiks á Íslandsmótið í sumar. Bæði lið þóttu standa sig vel og voru félaginu til sóma. A-liðið endaði í þriðja sætinu í sínum riðli eftir spennandi toppbaráttu og B-liðið endaði í fjórða sæti.

Allir kátir

Fjórði flokkur kvenna tefldi fram efnilegu liði á Íslandsmótinu í sumar þar sem stelpurnar okkar tóku þátt í keppni B-liða. Þar unnust nokkrir fræknir sigrar og stelpurnar enduðu gott sumar í fimmta sæti riðilsins, reynslunni ríkari.

 5. flokkur:

Sumarið var vægast sagt viðburðarríkt hjá stelpum og strákum í 5. flokki í sumar. Hápunkturinn hjá strákunum var líklega N1 mótið á Akureyri þar sem Snæfellsnes mætti með tvö lið til keppni. Bæði lið stóðu sig vel og enduðu í 5. sæti sinnar deildar eftir æsispennandi umspilsleiki um sæti.

Strákarnir tóku þátt í Íslandsmótinu og eins og á Akureyri voru tvö lið frá okkur skráð til leiks. Óhætt er að segja að bæði liðin hafi staðið sig með eindæmum vel því A-liðið krækti í 2. sæti mótsins á meðan B-liðið endaði í 3. sætinu.

Góð tilsögn frá Ejub

Stelpurnar í 5. flokki gáfu strákunum ekkert eftir í velgengni í sumar. Liðið lék í sterkum riðli á Íslandsmótinu og endaði að lokum í 10. sæti. Þá fóru stelpurnar bæði á Símamótið og til Vestmannaeyja og snéru til baka frá báðum mótum með bikara í farteskinu.

Meistarar

6. flokkur:

Hápunkturinn hjá sjötta flokki karla er án nokkurs vafa ferð á Orkumótið í Vestmannaeyjum , sem þykir mest spennandi mót sumarsins. Eins og við var að búast voru drengirnir félaginu til sóma og sýndu að framtíðin í fótboltanum er björt á Snæfellsnesi. Þá fóru þeir heim með Helgafellsbikarinn.

Í sjötta flokki kvenna var meðal annars farið á símamótið þar sem stelpurnar skemmtu sér konunglega, sýndu lipra takta með boltann og komu heim með bikar. Þá tóku stelpurnar einnig þátt í Hnátumóti KSÍ í júlí.

Bikargleði

7. flokkur:

Það er staðreynd að á sumrin er hvergi meira stuð en á knattspyrnumótum yngstu leikmanna framtíðarinnar. Gleðin skein úr andlitum allra drengja á Norðurálsmótinu á Skaganum og á Weetos mótinu í Mosfellsbæ. Gleðin var ekki minni hjá stelpunum sem tóku meðal annars þátt í Símamótinu og Weetos mótinu.

Top