You are here

Viðtal við Cristian Martinez | ,,Mér finnst ég vera heima hjá mér”

Cristian Martinez Liberato

Spánverjinn Cristian Martinez Liberato er fyrir löngu orðinn þekktur á Snæfellsnesi en hann hefur undanfarin þrjú tímabil staðið í marki Víkings Ó. í fótboltanum þar sem hann hefur leikið 62 leiki fyrir Víking Ó. í deild og bikar. Cristian kann vel við sig á Íslandi og til marks um það má nefna að hann er farinn að búa hérna á veturna.

Síðasta vetur kenndi hann í skólanum og samhliða því að kenna í vetur mun hann einnig sinna þjálfun barna í sundi og fótbolta. Aðspurður segist Cristian spenntur fyrir vetrinum.

,,Ég er mjög spenntur fyrir því að fá að þjálfa fótbolta og sund í vetur. Mér finnst báðar íþróttagreinar skemmtilegar auk þess sem ég hef mjög gaman af því að vinna með börnum. Vonandi munu börnin skemmta sér líka.”

Við vitum öll að Cristian er mjög fær í fótboltanum, en hvernig sundmaður er hann? ,,Alltaf þegar ég fer í sund þá reyni ég að gera meira en ég get,” segir Cristian hlæjandi og bætir við. ,,Annars hef ég því miður ekki haft mikinn tíma fyrir sund í sumar. Ég bæti úr því þegar keppnistímabilinu í fótboltanum er lokið.”

Hvaða áherslur hefur Cristian í þjálfun? ,,Það er mikilvægt að reyna að kenna krökkunum sem mest í þeirri íþróttagrein sem þau stunda en first þarf að tryggja að þau hafi gaman af því sem þau eru að gera.”

Cristian þegar hann kom fyrst til Víkings.

Að vera knattspyrnumaður, kennari, fótboltaþjálfari og sundþjálfari tekur skiljanlega mikinn tíma. En hvað gerir Cristian þegar hann er ekki í vinnunni?

,,Ég er eiginlega alltaf í vinnunni en þegar ég fæ frítíma finnst mér best að vera heima að horfa á bíómyndir eða sjónvarpsþætti. Ég reyni líka að lesa bækur þegar tími gefst til.”

Eins og áður segir kom Cristian til Íslands frá Spáni árið 2015. Hann viðurkennir fúslega að hann hafi ekki átt von á því að hingað myndi hann flytja og festa rætur.

,,Nei ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég yrði svona lengi á Íslandi og farinn að vinna í skólanum hérna. En ég er mjög ánægður með þetta og vil nýta tækifærið til að þakka öllum sem hafa hjálpað mér að koma mér fyrir á Íslandi. Mér finnst ég vera heima hjá mér.”

Að lokum segist hann kunna ákaflega vel við bæjarandann. “Ég kann vel við Snæfellsbæ því þetta er mjög rólegt og friðsælt bæjarfélag. Fólkið hérna er líka ótrúlega almennilegt og alltaf tilbúið til að rétta fram hjálparhönd ef maður þarf á því að halda.”

Öruggur í markinu.
Top